Saga Constantins og dómsmálið gegn starfsmannaleigunni Seiglu

Þetta helst - Een podcast door RÚV

Categorieën:

Þegar Rúmeninn Constantin Barbieru Manolache hætti að vinna hjá starfsmannaleigunni Seiglu í mars í fyrra fékk hann ekki greidd laun fyrir síðasta mánuðinn. Constantin hafði fengið fimm menn frá bænum sem hann kemur frá í Rúmeníu hingað til lands í vinnu. Þeir voru í sömu stöðu og Constantin og áttu inni laun hjá Seiglu sem þeir fengu ekki greidd. Constantin fann til ábyrgðar gagnvart þeim vegna þess að hann hafði fengið þá hingað til lands. Constantin segir frá reynslu sinni af Seiglu í þættinum í dag. Hann stendur nú í dómsmáli gegn fyrirtækinu og reynir að fá vangreidd laun frá því. Mál hans er fordæmisgefandi fyrir tugi annarra starfsmanna Seiglu segir lögmaður hans, Leifur Gunnarsson. Lögmaður Seiglu, Skúli Sveinsson, segir við Þetta helst að dómsmálið snúist um það álitamál hvort starfsmaðurinn hafi verið ráðinn í 70 prósent eða 100 prósent starf. Hann segir að Constantin hafi fyrir mistök verið ráðinn í 100 prósent starf samkvæmt ráðningarsamningi en að ætlunin hafi verið að hann fengi 70 prósent starf. Málefni starfsmannaleiga hafa verið mikið til umræðu í kjölfarið á umfjöllun fréttaskýringaþáttarins Kveiks í lok september. Starfsmannaleigan Seigla hefur ratað inn í þá umræðu vegna þessa að fjölmörg kjarabrotamál sem tengjast fyrirtækinu hafa ratað inn á borð til aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands, meðal annars Verkalýðsfélagsins Hlífar í Hafnarfirði. Eins og er þá er Seigla eina starfsmannaleigan sem starfsmenn verkalýðshreyfingarinnar hafa rætt um opinberlega með nafni eftir Kveiksþáttinn.