Anna Sorokin framseld og móttaka flóttafólks

Hádegið - Een podcast door RÚV

Categorieën:

Soho svikahrappurinn Anna Sorokin eða Anna Delvey eins og hún kallar sig hefur verið framseld til Þýskalands frá Bandaríkjunum eftir að hafa afplánað um það bil fjögurra ára dóm í Rikers fangelsi New York vegna fjársvika og þjófnaðar. Fram að fangelsisvistinni hafði hún lifað glæstum og ríkmannlegum lífsstíl frá því hún kom til stórborgarinnar - sem einkenndist af rándýrum merkjavörum, dvöl á fínustu hótelum New York og veislum með fína, fræga og ríka fólkinu. Þar var hún þekkt fyrir sérstakan persónuleika sinn, einkennandi stíl, og kannski ekki síst - fyrir að eiga gífurleg auðæfi sem þýskur erfingi auðmanna. Eini gallinn var að ekkert af því var satt. við fjöllum um Delvey í fyrri hluta þáttarins. Frá því innrás Rússa í Úkraínu hófst þann 24. febrúar síðastliðin, hafa 1,4 milljónir manna flúið land - og á hverri sekúndu, verður úkraínskt barn flóttamaður. Það eru tuttugu dagar síðan innrásin hófst og tölurnar segja okkur því að á hverjum degi hafa um 70 þúsund börn flúið heimili sín. Og þau leita skjóls víða, flest til Póllands eins og við greindum frá í Hádeginu í gær - en einnig út um allan heim, þar á meðal til Íslands. 450 manns hafa sótt um alþjóðlega vernd hér á landi frá áramótum, og þar af eru 179 með tengsl við Úkraínu. Undanfarna þrjá daga voru 48 skráðir í kerfi lögreglunnar, 29 þeirra með tengsl við Úkraínu. En hvernig tökum við á móti þessu fólki? Við ræðum um móttöku flóttafólks við Svein Rúnar Sigurðsson lækni og tónskáld í síðari hluta þáttarins, en hann hýsir nú úkraínska fjölskyldu á sínu heimili - og hefur sterk tengsl við landið. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.