Fjölmiðlafrelsi í Mið-Austurlöndum og vopnasala blómstrar í Covid

Hádegið - Een podcast door RÚV

Categorieën:

Síðustu daga höfum við fjallað um fjölmiðla og hvað veldur því að þetta en ekki hitt sé tekið til umfjöllunar í fjölmiðlum. Fjölmiðlalandslag heimsins er æði fjölbreytt og ekki allstaðar sem fjölmiðlafólk nýtur viðlíka frelsis til tjáningar eins og hér á landi. Alræðisstjórnir hafa notað baráttuna gegn hryðjuverkum og Covid-19 faraldrinum sem yfirskin til að klekkja á mannréttindasamtökum um allan heim og hindra störf blaðamanna sem hafa reynt að skjalfesta brot ráðamanna og umfang faraldursins. Ógnarstjórnir skerða þannig enn frekar lýðræðisleg réttindi þegna sinna og hefta upplýsingaflæði til almennings, sem veikir lýðheilsumarkmið varðandi Covid, stuðlar að kosningasvindli og mannréttindabrotum. Þetta er niðurstaða nýrrar samantektar á vegum samtakanna Fréttamenn án Landamæra. Svört skýrsla svo ekki sé meira sagt. Langverst er ástandið sagt vera í Miðausturlöndum og Norður-Afríku en á því svæði eru 9 af 10 þeim ríkju þar sem starfsöryggi og líf blaðanna eru í mest bráðri hættu. Gunnar Hrafn Jónsson, blaðamaður og sérfræðingur í málefnum Mið-Austurlanda ræðir við okkur um skýrsluna. Það hefur orðið efnahagssamdráttur vegna heimsfaraldurs. Hann plagar flesta - flesta einstaklinga, fyrirtæki, stofnanir, ríki og ríkisstjórnir heimsins - en þó ekki alveg allt og alla. Til dæmis, og kannski eðli málsins samkvæmt, virðast ákveðin lyfja- og bóluefnafyrirtæki mala gull á þessum tímum veiru. Þá hafa margar netverslanir það gott, greiðsluþjónustufyrirtæki og póstendingarþjónustur á þessum tímum útgöngubanna og lokana. - Já og svo vopnaframleiðslufyrirtæki, en hundrað stærstu vopnaframleiðendur heims högnuðust á síðasta ári. Í árlegri úttekt Alþjóða friðarrannsóknarstofnunarinnar í Stokkhólmi kemur fram að hagnaður þeirra hafi numið um einu komma þremur prósentum á sama tíma og efnahagur heimsins dróst saman um þrjú prósent. Ríkisstjórnir heimsins virðast því ekki hafa séð tilefni til þess að skera niður í vopnakaupum í Covid-kreppu. Jafnvel þvert á móti - því samkvæmt úttektinni hafa sum ríki gripið til aðgerða til verndar og stuðnings vopnaframleiðendum. Við skoðum málið í seinni hluta þáttarins. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.