Hugsanleg þáttaskil í faraldrinum og þriðja vaktin
Hádegið - Een podcast door RÚV
Categorieën:
Hans Kluge, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í Evrópu, segir að nýtt tímabil sé hafið í heimsálfunni með omíkron-afbrigði kórónuveirunnar sem getur markað endalokin á faraldrinum í Evrópu, en þó ólíklega enda Covid-19 veirunnar. Með hraðri útbreiðslu omíkron geti verið að hjarðónæmi náist á næstu mánuðum, veiran láti lítið fyrir sér fara um skeið en komi hugsanlega aftur undir lok ársins, þá meira í líkingu við almenna flensu. Við skoðum spár Kluge í fyrri hluta Hádegisins. Talað er um að fyrsta vaktin á heimilinu sé það launaða starf sem hjón eða pör sinna. Önnur vaktin felur svo í sér framkvæmd hinna ýmsu starfa og verkefna heimilisins, svo sem þrifum, að baða börnin og þar fram eftir götunum. Þessi vakt fellur mun oftar á konur en karla í gagnkynja samböndum. En svo er það þriðja vaktin: Sú ólaunaða ábyrgð og vinna sem felst í verkstýringu og yfirumsjón með heimilis og fjölskylduhaldinu. Í því felast allskonar og stundum vanmetin verkefni - eins og að panta tíma fyrir barn hjá tannlækni og muna eftir afmælum og gjöfum eða hrekkjavökunni í tæka tíð. Og aftur er algengast að konur sinni þessari vakt og taki að sér þá hugrænu byrði sem í henni er fólgin. Því geta fylgt ýmsar afleiðingar, bæði innan og utan heimilisins - afleiðingar sem á endanum standa í vegi fyrir jafnrétti. Við endurflytjum spjall okkar um þriðju vaktina við Huldu Jónsdóttir Tölgyes sálfræðing frá 25. nóvember 2021 í seinni hluta þáttarins. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.