166| Samningaborðið á COP28 og Úkraínumenn breyta jólunum
Heimskviður - Een podcast door RÚV - Zaterdagen
Categorieën:
Heimskviður hefja leika í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, í Dubai þar sem COP28 stendur nú sem hæst. Og hún á að verða ráðstefna aðgerða, svo að þau markmið sem sett hafa verið í loftslagsmálum síðustu ár náist. En er það yfir höfuð hægt? Erum við ef til vill orðin of sein að grípa í taumana? Þau sem eru við samningaborðið í Dubai telja að svo sé ekki. Og eru reyndar mörg hver á því að lokasamþykktin gæti orðið söguleg, takist að koma inn ákvæði um framtíð jarðefnaeldsneytis - olíu og gass. Þar til fyrir aðeins örfáaum árum þögðu samningamenn þunnu hljóði á COP-ráðstefnum um áhrif jarðefnaeldsneytis. En er hægt að taka nokkuð mark á því sem þarna gerist? Loftslagsráðstefna í olíuríkinu Sameinuðu arabísku furstadæmunum hljómar eins og grín. Mörgum er reyndar ekki hlátur í huga og segja grafalvarlegt að svo mikilvæg ráðstefna sé haldin á viðlíka stað. Svo ekki sé nú minnst á manninn sem fer fyrir öllu klabbinu: Soldán sem gegnir framkvæmdastjórastöðu í ríkisolíufyrirtæki Abu Dhabi. Gagnaleki skömmu fyrir ráðstefnuna þótti sýna að gestgjafarnir hefðu aðrar meiningar með gestgjafahlutverkinu en að berjast gegn loftslagsvánni. Oddur Þórðarson ætlar með okkur að samningaborðinu í Dubai. Svo hugum við að jólahaldi í Úkraínu. Það hefur eðli málsins samkvæmt ótalmargt breyst í Úkraínu eftir innrás Rússa og þar á meðal jólin. Úkraínumenn vilja losa sig við allar hefðir sem tengjast Rússlandi og því verða jólin í ár og framvegis haldin 25. desember en ekki 7. janúar líkt og tíðkast í Rússlandi og hafði lengi tíðkast í Úkraínu. Dagný Hulda Erlendsdóttir kynnti sér málin og ræddi við Úkraínumenn í Kyiv og hér á Íslandi. Umsjónarmenn þáttarins eru Birta BJörnsdóttir og Bjarni Pétur Jónsson.