45 | Leitin að bóluefni, Navalny og Tyrkland Erdogans

Heimskviður - Een podcast door RÚV - Zaterdagen

Categorieën:

Í Heimskviðum í dag segjum við frá kapphlaupinu að bóluefni gegn Covid-19, kynnum okkur stöðuna í Rússlandi í aðdraganda héraðskosninga þar um helgina, og segjum frá ferli eins þekktasta stjórnarandstæðings landsins, Navalny. Þá segjum við frá mannréttindum í Tyrklandi í sögulegu samhengi. Heimsmet í bóluefnaframleiðslu er handan við hornið en þúsundir vísindamanna keppast nú um að verða fyrstir til að koma á markað bóluefni við Covid-19. Það er kraftaverki næst því þróun bóluefna tekur jafnan ár og jafnvel áratugi. Og það er mikið undir, líf og heilsa milljóna, heilu efnahagskerfin og margir stærstu lyfjarisa heims keppast um að verða fyrstir. En er kappið og samkeppnin of mikil? Bjarni Pétur Jónsson kynnti sér bóluefnakapphlaupið. Héraðskosningar fara fram í Rússlandi um helgina í skugga mikilla mótmæla í nágrannaríkinu Hvíta-Rússlandi, og einnig í skugga eitrunar helsta andstæðings forsetans, Alexey Navalny Það er því loft lævi blandið og margir nýir flokkar sem hafa viljað bjóða fram en ekki fengið blessun stjórnvalda. Dagný Hulda Erlendsdóttir fjallar um málið og segir okkur einnig frá stjórnmálaferli Navalnys, sem spannar yfir tuttugu ár. Upp varð fótur og fit í síðustu viku þegar Róbert Ragnar Spanó, forseti Mannréttindadómstóls Evrópu, fór í opinbera heimsókn til Tyrklands og veitti þar viðtöku heiðursdoktorsnafnbót við Háskólann í Istanbúl. Róbert var gagnrýndur harðlega fyrir að taka við slíkri nafnbót úr hendi Erdogans Tyrklandsforseta. Hvers vegna? Jú vegna þess að mannréttindi, þau sömu dómstóll Róberts Spanós stendur vörð um, hafa í stjórnartíð Erdogans verið víða fótum troðin, ekki bara í landinu sjálfu heldur einnig í nágrannaríkjum, meðal annars Sýrlandi. Guðmundur Björn Þorbjörnsson fjallar um Tyrkland og mannréttindi. Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.